fimmtudagur, mars 06, 2003
Ok ég geri mér grein fyrir að ég lofaði fyndnum nördasögum af sjálfri mér í næstu greinaskrifum en þær verða bara að fá að bíða aðeins (getur varla verið löng bið eins og allir sem þekkja your truly vita)
Allt í einu þá er ég búin að gera mér grein fyrir að ég er í alvörunni að fara til Asíu eftir einungis 2 mánuði! Mikið er tíminn fljótur að líða! Er ég í alvörunni búin að vinna sem lobbýrotta í 7 mánuði og er í alvörunni ár síðan ég var úti í Salamanca? Er sumarið í alvörunni að koma og er ég í alvörunni að verða 22 ára gömul? Á mínum aldri var móðir mín að skipuleggja brúðkaup og barnaeignir, -ég lofa sjálfri mér að fara ekki á fyllerí næstu helgi!
Hræðslan við að fara ein til Asíu er að byrja að láta á sér kræla. Kannski hefur stríðsáróður míns elskulega föður eitthvað þar að segja en hann notar hvert tækifæri til að tala um Íraksdeilur, væntanlega heimsstyrjöld í austri, vændishringi, mannsal og hvítt þrælahald. Útlitið er dimmt fyrir einmanna ljóshærða mey frá Íslandi...
Ég veit svosem að ég á ekki að taka of mikið mark á þessum dómsdagsspám en þið gerið ykkur vonandi grein fyrir að þið eruð að tala um stúlkuna sem grét söltum tárum í koddann kvöldið áður en hún fór til Spánar og skildi ekkert í sjálfri sér að vera að leggja útí þessa "vitleysu". Og sjá, -hversu vel rættist svo úr "vitleysunni"!
Breytir engu um það að þetta er stórt skref fyrir litlu pabbastelpuna mig, hugsa að umrædd pabbastelpa hafi örugglega ekkert nema gott af því að standa á eigin fótum og gera sína eigin hluti. Hugsa það, vona það. Jújú ég VEIT það! :)
