mánudagur, mars 24, 2003
Í þetta skiptið varð harmleikurinn af völdum heittelskaðra stígvéla minna (eina ferðina enn). Þetta samband míns og skófatnaðar er eitthvað meira en lítið furðulegt. Einna helst væri hægt að líkja þessu við ástar/haturs sambands og er þá hatrið ástinni yfirsterkara í augnablikinu. Þessi 9 pör (já 9) sem ég á virðast leggja sig fram um að gera mér lífið leitt. Þessa helgi sviku uppáhalds, gömlu góðu stígvélin mig og ákváðu að fara í sjálfstætt ferðalag. Eða nánar tiltekið hællinn......
Þar sem þetta er eiginlega ekki einleikið, en alls hefur mér tekist að skemmileggja fjögur pör seinasta árið hef ég ákveðið að láta harmasögu mína og brotinna hæla fylgja......
Stígvél nr1: Salamanca 2002-Irish Rover.
Það var nýja fína 22.000 króna stígvélið mitt sem fór fyrir lítið. Hællinn flaug af (ekki viss hvar, hvenær eða hvernig sökum annarlegs ástands..) á uppáhaldsstaðnum mínum í Salamanca. Skreið útum öll gólf leitandi að hælnum og plataði hálfan staðinn til að skríða með mér en fór fyrir lítið. Hló mikið að þessu, ákveðin í að láta þetta ekki stoppa mig í djamminu og hoppa/skakklappast/dansa útum allan bæ á einum 10 sentimetra hæl til klukkan 8 um morguninn.
Stígvél nr2: Október 2002- Kaffi Victor.
Í þetta skiptið voru það brúnu, tvílitu stígvélin, botninn á öðrum hælnum flýgur af í miðri danssveiflu á Victor en tekst að finna hann aftur. Aftur, harðákveðin í að láta þetta ekki skemma djammið og held ótrauð áfram fram í dögun...
Stígvél nr3: Nóvember 2002- Laugarvegurinn.
Var annað stígvélið hennar SIGRÚNAR -sem ég nota beni keypti handa henni og átti ekki að vera í. Við vorum í partýi og fröken Sigrún tekur vitlaust stígvél (já í eintölu!) niður í bæ. Þannig ég enda á sitthvorum skónum og "auðvitað" flýgur hællinn af hennar stígvéli af á miðjum Laugarveginum og ég á andlitið. Á þessum tímapunkti var mér hætt að finnast þetta á einhvern hátt skoplegt og reiðin tók öll völd. Hælnum grýtt í ólánsamt fólk hinu megin götunnar, öskraði á stelpurnar sem sýndu ekki tilhlýðilega samúð heldur grenjuðu af hlátri og strunsaði burt í fýlu. Kvöldið ekki algerlega ónýtt, var búin að ná að fara á Celtic, Hverfisbarinn og Tres Locos áður og svo náði ég að plata riddaralegan ungan herramann til að borga fyrir mig leigubílinn.
Stígvél nr4: Seinasta helgi- Laugarvegurinn.
Tvílitu brúnu stígvélin AFTUR (var sko búin að gera við þau). Núna fékk ég sko engan tíma til skemmtunar, flaug á hausinn sirka 5 mínútum eftir að við komum í bæinn og helv$&% hælinn af. Varð ekki glöð, varð ekki reið heldur bara leið. Fór að skæla og fór í fýlu. Fannst lífið ósanngjarnt. Neitaði að gera gott úr þessu þrátt fyrir að stelpurnar hafi verið góðar og ekki hlegið að mér (þrátt fyrir ærið tilefni!) og reynt að hugga mig. Fór ein heim í leigubíl klukkan tvö og þurfti að punga út 2.250 krónum fyrir það ferðalag.
-Mér hrís hugur við hvað skeður næst... Kannski ætti ég bara að losa mig við hælasafnið? Einhver sem býður í það???? ;)
