fimmtudagur, janúar 08, 2004
Jæja þá er skutlan* snúin aftur til bloggheima eftir ánægjulegt jólafrí. Því var mestmegnis eitt í leti og ómennsku sem er einmitt mín uppáhalds afþreying. Ég er búin að tileinka einn sófa heimilisins mér, en þar á ég nú permanent rassafar eftir maraþon sjónvarpsgláp og bókalestur. Kisulingarnir mínir voru sérdeilisprýðilegir hangifélagar en þau eru alltaf til í áðurnefnda leti, ómennsku og smá slagsmál inná milli. Ég er annars búin að eignast sálufélaga í litlu læðunni minni en hún er sá mesti leti og nautnaseggur sem ég þekki. Þrátt fyrir ungan aldur er sú dama alveg búin að komast að því hver ræður í okkar sambandi (smá hint -það er ekki ég..). Hún borðar meira en ég og ef hún er ekki að láta klóra sér þá finnurðu hana hjá matarskálinni. Hún er einmitt komin með þessa líka fínu bumbu og ætlum við að fara saman í megrun á nýja árinu. En nóg um köttinn.
Skólinn er líka byrjaður aftur og núna á alveg splúnkunýrri braut að nafni sagnfræði. Vesalings foreldrar mínir andvarpa yfir þessu stefnuleysi og ég fæ að heyra það á innsoginu nokkrum sinnum á dag að enn á ný hafi ég valið vitlaust og það sé bara tímaspursmál hvenær ég "sjái ljósið". Þ.e. fari í viðskiptafræði (pabbi) eða læknisfræði (mamma). Vill ég bara verða einhver kennari eða hvað?? Þessi vetur leggst nú samt vel í mig og ég er æðispennt yfir nýja náminu. Eina sem ég er ekki spennt yfir eru bókakaup og fjárútlát. Verð að fara að finna mér vinnu eða ríkan eldri mann. Annað bara gengur ekki.
