sunnudagur, október 24, 2004
Já eins og flestir hafa giskað þá var ég eilítið undir áhrifum þegar seinasta færsla var rituð. Ég tók mér semsagt frí frá heimaprófum, verkefnum og ritgerðum til að skella mér í vísindaferð. Förinni var heitið í Landsbankann, sem líkt og áður var getið, veitti ótæpilega af áfengi og tók ykkar elskuleg nokkra góða takta í bankahöllinni. Lenti einhvernveginn í samtali við bankastarfsmann sem reyndist vera besti vinur eins kennarans míns. Svosem ekki til frásagnar færandi nema hvað einhverra hluta vegna tilkynnti ég vininum umsvifalaust að þetta væri sko besti kúrs sem kenndur hefði verið í allri sögu Háskólans og að umræddur kennari væri bæði snillingur og fyrirmynd mín í lífinu. Skelfingarsvipur færðist yfir andlit vinarins en hann lofaði að bera þessi ofsafengnu lofsyrði til kennarans. Mikið hlakka ég til að fara í næsta tíma. Náði öðru innihaldsríku samtalið við samstarfskonu föðursystur minnar sem einmitt vinnur líka í Landsbankanum. Talaði við hana í góðar tíu mínútur og endurtók allan timann í sífellu að Hulda væri frænka mín. Fór svo á Dillon með sagnfræðinni, drakk meira, skellti á fólk í símann og ákvað síðan að taka síðasta strætó heim svo ég gæti farið að læra. Hljóp niður Laugarveginn með stuttu stoppi á Kebabhúsinu. Ryðst umsvifalaust fremst í röðina og heimta að starfsstúlkan geri þetta a.s.a.p því að ég væri sko að flýta mér! Næ strætó og sit alla leiðina uppí Grabba með andlitið ofan í kebabnum og sósu uppá allar kinnar. Kem svo loks heim en uppgötva að ég er læst úti. Vil ekki vekja foreldra mína sem eru þekkt fyrir að fara snemma í háttin og ákveð því að vekja frekar litlu systur til að hleypa mér inn. Safna steinum í töskuna, læðist fyrir aftan hús og tek að henda steinvölum í gluggann hennar. Litla systir er eitthvað lengi að fatta og drykkjusvínið ég er farið að vera óþolinmótt og tekur því að kasta sífellt stærri og stærri steinum. Eftir langa hríð birtist loks svefndrukkið og pirrað andlit móður minnar í glugganum sem tilkynnir mér fæstra orða það sé komin sprunga í glugga litlu systur og að hávaðinn af steinvölunum hafi ekki bara drunið um allt húsið og vakið heimilismeðlimi heldur einnig nágrannana. Litla systir, sem er nú ekkert svo lítil lengur, kom síðan heim rétt á eftir mér og eftir að detta í stiganum, hella niður kóki og restinni af kebabnum bít ég hana í öxlina. Síðan fer ég að sofa. Alltof þunn til að læra daginn eftir.
