fimmtudagur, október 07, 2004
Hef sjaldan verið eins dramatísk og í morgun. Eftir að hafa verið sparkað framúr rúminu við illan leik, grátið söltum tárum yfir morgunkulda, rifist við fjölskyldumeðlim og eytt 300 krónum í huggunarkaffi hjá Kaffitár var kominn tími á skólann. Stundvíslega klukkan 8:10 skundaði ég inn í aðalbyggingu Háskólans til að hlýða á vísdómsorð um Þjóðernishyggju og þjóðernisátök. Sitjandi í hnipri, íklædd vettlingum, húfu og trefli, rauðeygð með þreytutárin flæðandi úr augum, var ég óumdeilanlega sorgmæddasta hetjan á svæðinu. Þekki engan í þessum kúrs og enginn spurði því um orsakir táraflóðsins. Kannski hélt einhver að ég hefði rifist við Nígerískan ástmann minn, kannski flaug einhverjum strákanna í hug að maðurinn minn lemdi mig, ef til vill óttaðist túberaða eldri konan í sætinu fyrir framan að barnið mitt hefði greinst með krabbamein og læknirinn hringt rétt fyrir tímann. Það sem engan grunaði var að ég var bara morgunfúl með gamlar linsur...
