föstudagur, nóvember 19, 2004
Þegar ég var á leiðinni í skólann í myrkrinu mældist frostið 16 gráður. Held ég hafi bara sjaldan kynnst öðru eins. Hrein og klár geðbilun. Er líka sannur Íslendingur og á því ekki fatnað fyrir svona heimskautaveður. Sannir Íslendingar, eins og ég, fara ætíð út úr húsi berleggja og í opnum skóm í þunnum bol og jakka sama hvernig viðrar. Setja kannski á sig trefil ef veðrið er einstaklega slæmt. Einhverja hluta vegna finnst mér þessi samsetning bara ekki vera að virka þessa dagana. Kannski er ég að verða gömul, svona eins og mamma sem æpir ennþá á mig að muna eftir hlífðarfatnaðnum. Ég æpti þetta einmitt á litlu systur í gærkveldi.. En ég á við annað alvarlegra veðurtengt vandamál í lífi mínu að stríða. Ég er nefnilega mjög ráðvillt um hvort ég eigi að kaupa gallapils í Centrum. Fann gamla inneign í Kringluna og þarf að koma henni í lóg. En nú bæði á ég 5 gallapils og ætti maður síðan ekki frekar að kaupa sér heimskautaúlpu eða þykka peysu í þessu veðri? Svona svo maður verði ekki úti eða eitthvað. En pilsið er samt svo fallegt..
