föstudagur, nóvember 26, 2004
Líf mitt er undir venjulegum kringumstæðum mjög huggulegt. Mér finnst mjög gott að borða, yndislegt að sofa og frábært að slappa af. Ég stunda hóflega líkamsrækt og enn hóflegri skólagöngu. Ég hef einnig unun af lélegum raunveruleikasjónvarpsþáttum, sápuóperum, bókum, samverustundum með vinum og fjölskyldu og stunda næturlífið af og til. Á milli þessara ofantöldu athafna hef ég þó nægan tíma fyrir mína uppáhalds athöfn, -þeirri að gera ekki neitt. Þess að geta stundað þetta dásemdar líferni mitt fylgir þó ákveðinn fórnarkostnaður. Ekki gefst mikill tími í metnað eða lærdóm og sitja þessir tveir félagar oftast á hakanum þar til nauðsyn krefur undirritaða til að takast á við þá. Núna er sú stund runnin upp. Frá og með gærdeginum varð ég að gjöra svo vel að kveðja allar uppáhalds athafnir mínar nema þær alnauðsynlegustu (borða, sofa og america´s next top model)til 17. desember. Nú skal ætt á hundavaði í gegnum 3 mánaða lærdóm og verkefnaskil. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu. Dugnaður er skemmtilegur svona til hátíðabrigða.
