laugardagur, desember 18, 2004
Fer að líða að aðventu samkvæmt mínu dagatali. Prófin búin, bara ein tímamóta ritsmíð eftir og svo taka við jólagleði og gjafirnar. Er reyndar ekkert "undirbúa" neitt fyrir hátíðarnar eins og flestir telja heilaga jólaskildu sína að gera. Ég á engan jólakjól og ætla ekki að kaupa neinn. Svefndyngjan lítur út eins og bæli eftir bóka- og blaðaóðan svartbjörn. Hef haldið áfram hefðinni að svara aldrei jólakortum enda fækkar árlega í staflanum sem ég fæ sendan -bara þeir þrautseigustu eftir en þeir hljóta líka að gefast upp á endanum. Ekki hefur verið fest kaup á neinum jólagjöfum enda fæstar ákveðnar og hef ekki hugsað mér svo mikið sem að stíga fæti inn í eldhúsið hvað þá heldur að baka! Það sem ég hef hinsvegar hugsað mér er að hafa alltaf slökkt ljós í bjarnarhellinum og rómantískar blikandi jólaseríur, klæðast fötum seinasta árs, borða kökurnar sem mamma kaupir úti í Bónus og rimpa öllum jólagjafakaupum af í Kolaportinu. Það er hugurinn sem gildir ekki satt? -Nema reyndar hjá mér en ég vill bara eitthvað dýrt.
