laugardagur, desember 04, 2004
Hinn árvissi atburður er genginn í garð. Jafn viss og koma Stekkjastaurs er hin árlega tiltektarmanía á mínu menningarheimili. Það bregst ekki að um leið og ég dreg upp bók og hef próflestur að þá fær móðir mín óslökkvandi löngun í ryksuganir, háværa tónlist, hurðaskelli og að draga antíkhúsgögn hallarinnar eftir gólfinu. Met var slegið í dag sem ætti alveg örugglega erindi í heimsmetabók kenndri við Guinnes. Tókst úrræðagóðri móður minni, óþreytandi í skemmtiatriðum jólaprófanna, að ryksuga sófann fyrir framan dyngju mína í þrjá klukkutíma. Án ýkna. Það þarf sko þrautsegju og járnvilja til þess. Núna eru þessvegna staðsettir þrír flóttamenn frá Grafarvogi á Þjóðarbókhlöðunni. Einn í menntaskólaprófum, einn í stúdentsprófum og sá gáfaðasti í Háskólaprófum. Gleðilega aðventu mamma.
