laugardagur, janúar 29, 2005
Er búin að eiga ekkert smá huggulegan dag í dag. Vaknaði venju fremur snemma og var mætt í ræktina með stelpunum klukkan 10. Helgarafrek sem á sér fá fordæmi í mínu lífi. Tíminn var mjög gefandi, kallast Suðræn Sveifla og samanstendur af léttum leikfimiæfingum með smá mjaðmadilli. Mjög svo huggulegur tími fyrir þreyttar og morgunfúlar konur. Fórum svo í "hádegispásu" í hina gríðarlega hátískuvænu búð ZikZak þar sem ég ætlaði að ná í peysu fyrir ömmu en endaði á að kaupa mér líka flík. Þvílík kostakjör á bara þúsara og peysan alveg gaaasalega lekker! Ásta vinkona var búin að hlægja þvílíkt að mér að ætla í þessa búð en endaði konan ekki á þvi að labba sjálf út með eiturgrænan jakka. Ákváðum svo að skella okkur bara aftur í ræktina og fórum í jógatíma, heita gufu og svo laugina. Vorum semsagt i ræktinni frá tíu til þrjú um daginn og geri aðrir betur! Settum svo punktinn fyrir I-ið með kaffiþambi og áti á Vegamótum. Maður verður nú að eiga einhverjar hitaeiningar til að brenna ;)!
