föstudagur, janúar 28, 2005
Ég er svo mikill lúði að það er ekki fyndið. Fimmtudagar eru frí í skólanum hjá mér en til að byggja í haginn fyrir framtíðina ákvað ég að vakna samt klukkan hálf átta og skutla örverpi fjölskyldunnar í skólann. Litla gerpið er nefnilega að fá bílpróf fljótlega og því gott að láta það (gerpið) vita hver sé bestur við það. Sé í hyllingum ókeypis "leigubíla" úr miðbænum. Þessir smákrakkar hafa hvort eð er ekkert betra að gera. En allavega, í morgun var ég frekar sybbin eftir að hafa horft á Litróf ástarinnar kvöldið áður og greip því það sem hendi var næst úr ískápnum. Það eina sem ég fann var ananasdjús og þambaði ég stórt glas af svalandi safa áður en út var haldið. Allan morguninn var svo aumingja litla ég alveg hræðilega magaveik og afskaplega óglatt. Gat ekki hugsað mér að borða neitt og fékk mér bara meira ananasdjús. Og alltaf varð magaverkurinn verri og verri. Það var ekki fyrr en Húsfreyjan sjálf nappaði mig við þriðju atrennuna í ananasdjúsinn sem ég skildi magapínuna miklu. Helvítis fernan rann út fyrir 13 dögum!
