sunnudagur, febrúar 27, 2005
Kannist þið við að hafa of mikið að gera og enda svo á því að gera bara ekki neitt? Dýrmætum klukkustundum er eitt í símavændi eða maraþon skriftum á MSN og manni hundleiðist þess á milli. Tvenn ritgerðardrög, ein ritgerð, önnur ritgerð, heimalærdómur, árshátíðarskipulagning, útlandaferð og sumardjobb hanga yfir hausnum svo fátt eitt sé nefnt. Sting hausnum undir stein (eða kodda) eins og strútur og læt allt hrannast upp. Fer í mesta lagi í ræktina. Rosalega hefði það hentað mér vel að vera uppi á dögum Jane Austin. Og að sjálfsögðu í yfirstétt. Eyða lífinu í fataval, bréfaskriftir, skemmtilestur, matarboð, slúður og partý. Rúsínan í pylsuendanum er svo þjónustufólkið og að vakna aldrei fyrir hádegi. En letilíf er víst fjarlægur draumur og nú sekk ég mér inn í orðræðu John Stuart Mill um Frelsið. Þetta er nú reyndar mjög spennandi efni ef mér bara tekst að reka letipúkann á brott.
