miðvikudagur, mars 23, 2005
Líf mitt er nokkuð fjölbreytt. Suma daga er ég moldrík og óendanlega hæfileikarík fegurðardrottning, með aðdáendur á hverju strái og peningaslóð á eftir mér. Alveg hreint rosalega vinsæl. Stundum gef ég út plötur sem vinna til Grammy-verðlauna eða leik í óskarsverðlaunakvikmyndum en annars læt ég mér nægja að taka þátt í Ædol. Mér finnst líka rosalega gaman að ferðast til framandi staða, læra tungumál Pygmía í Afríku, vingast svo við höfðingjann sem gerir mig að veiðimanni, setur á mig frumbyggjatattú og ég verð æðislega brún. Þegar ég er menningarleg gef ég út metsölubækur eða fæ rannsóknarstyrki og tíur á öllum prófum. Daga sem reglulega vel liggur á mér er ég súpermann og þegar ég nenni ekki að labba upp brekkur get ég flogið. Fljúgandi teppi virka líka. Stundum skjóta leyniskyttur á mig þegar förinni er heitið gangandi að kvöldlagi og það hefur komið fyrir að ég sé ægifagur eða rosalega ljótur betlari, að dauða kominn, sem labbar í átt að kastalanum sér til bjargar. Stundum er ég líka prinsessa eða yfirmaður sem hendir í fangelsi eða neitar að ráða þá sem eru vondir við mig. Í dag tók ég þátt í kapphlaupi upp á líf og dauða þar sem stigamenn eltu mig um Grafarvoginn í skokkgallanum. Ég komst undan en það var erfitt..
