fimmtudagur, apríl 28, 2005
Ung kona á þrítugsaldri læðist niður í dýflisu hallarinnar og reiðir fram pening. Ég ætla að taka þetta með mér, hvíslar hún og horfir flóttalega til beggja hliða. Leið hennar liggur nú upp í hæsta turn kastalans og hún leggur ótrauð af stað. Skáskýst fram hjá vörðum og eftirlitsmönnum, hoppar yfir lítil börn á vegi hennar, forðast með öllu að ná augnsambandi við nokkurn mann og gætir þess vandlega að hella engu niður af dýrmætum vökvanum. Hún kemst klakklaust upp í hallarturninn og er svo nálæg. Svo hræðilega nálæg. Langi gangurinn að dyngju hennar framundan er þó hættulegasti vegkafli leiðarinnar og afar vel varðaður. Hún dregur djúpt andann, felur elexírinn í töskunni og sendir yfirmanni varðanna geislandi bros þegar hún gengur fram varðstöðinni. Hann grunar ekki neitt og brosir á móti. Loks kemst hetjan okkar á leiðarenda og getur hvílt spenntar taugar sínar. Henni tókst það! Það er sko mikið á sig lagt fyrir kaffisopa á Þjóðarbókhlöðunni.
