sunnudagur, maí 08, 2005
Er óhollt að dvelja of mikið í draumalandi? Ætli ég sé ein um að semja sögur í hausnum á mér? Alltaf er ég sjálf i aðalhlutverki en flétturnar eru æðimisjafnar. Sumar eru smásögur, aðrar epískar langlokur en allar eru þær skemmtilegar. Þegar ég svo upphugsa nýjan dagdraum er gleðin mikil við að útfæra hann sem best og hugsanlega tengja hann öðrum gömlum klassíkerum. Innra með mér hef ég lifað mörg æviskeið og í gegnum þau upplifað mikla gleði og marga sorgina. Jafnvel áður en ég fer út í ísbúð sem ég sögu um hvað muni gerast, hvern ég hitti og hvernig ferðin hugsanlega endar. Sú saga fer þó í smásagnarflokkinn og kemst að öllum líkindum ekki í þann epíska en þær sögur eru margar hverjar gamlir vinir. Ég kann söguþráðinn, línurnar og persónurnar en kosturinn við að hafa þær í hausnum á mér er að ég get heimsótt þær hvenær sem ég vil.
