sunnudagur, maí 29, 2005
-upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.
Klífa skriður, skríða kletta,
velta niður, vera að detta.
Hrufla sig á hverjum steini,
halda að sárið nái að beini.
Finna hvernig hjartað berst,
holdið merst og tungan skerst.
Lengsta ljóð Íslandssögunnar, man eftir grát og gnístan tanna meðan öll sjöhundruð erindin voru lögð á heilann í níu ára bekk. Ljóðinu var þó greinilega það vel hamrað inn í heilann, þarna í minni ó svo fjarlægu æsku, að því skaut upp í hugann í gærkveldi og ég kunni það enn. Það var yndislegt veður, kvöldsól, hlýtt og blankalogn þegar mér datt í hug að skella mér í smá göngutúr. Ákvað að klífa Búrfellið og hangandi í klettabelti ofarlega á fjallinu kyrjaði ég þessar línur, þar sem ég þrýsti mér eins og fluga að bröttum hömrunum og sá eftir að hafa lagt út í þessa vitleysu. Með fimi flóðhestsins skreið litla flugan yfir erfiðasta hjallann og vóg sig upp á tindinn. Það var samt þess virði því útsýnið var geggjað og mér leið eins og drottningu dalsins. Tók einn góðan DiCaprio á þetta og öskraði af fjallsbrúninni yfir þegna mína í dalnum ,,I´m the king of the wooorld!"
