sunnudagur, júlí 10, 2005

Örlögin bönkuðu á dyrnar í partýinu í gær. Strákarnir sáu víst til spænska sjarmörsins, Hollywoodleikarans og töffarans Gael Garcia Bernal á kaffibarnum á föstudaginn. Var drengurinn í góðum gír og búist við honum þangað aftur. Þrátt fyrir að strákarnir hafi fullvissað okkur um að leikarinn væri ekki nema í hæsta lagi 150 cm á hæð, pervisinn og ófélegur varð ekki tauti við okkur kvennfólkið komið. Á Kaffibarinn skyldi haldið og Gael Garcia fundinn. Hann á nefnilega sjö sálufélaga hér á Íslandi, hann bara veit það ekki ennþá. Við Ausa stoppuðum fyrst á Ölstofunni til að útfæra hernaðaráætlunina, æfa spænskuna og búa okkur undir stund hinnar einu sönnu ástar. Hálftíma síðar voru á Kaffibarnum fjöldamargar yngismeyjar með tindrandi augu og blíða von í brjósti. Var þó ljóst að til harkalegra slagsmála gæti komið þegar hinn eftirsótti karlmaður birtist á svæðinu. Sem hlýtur að vera ástæðan fyrir því að hann kom ekki eftir allt saman. Hann er greinilega ekki bara bráðhuggulegur heldur líka svo tillitssamur að vilja ekki stofna til áfloga. En við sálufélagarnir sjö vorum alveg sáttar þar sem enginn fær örlög sín umflúin, hann kemur bara næst.
