sunnudagur, ágúst 21, 2005
Tók mér verðskuldað frí í gær frá því að ekki-læra og menningaðist með vesengenginu. Borðuðum á Alþjóðahúsinu til að fá smá alþjóðlega menningu og röltum svo um bæinn. Þar hittum við fyrir mennina sem voru að taka ómenningarrúntinn, roguðust með ársbirgðir af áfengi milli Arnarhóls, Hlemmtorgs og Austurvallar og supu á kardemmommudropum milli bjóra til að auka á stemminguna. Horfðum svo á flugeldasýninguna sem að virtist hafa orskað ragnarrök en þegar fyrsti flugeldurinn sprakk opnuðust himnarnir með tilheyrandi úrhellisrigningu -sem stóð nákvæmlega jafn lengi og sýningin. Þá var nú gott að vera með regnhlíf. Í röðinni fyrir utan Ölstofuna vinguðust Edda og Ása við Gullu í Svínasúpunni þegar þær tróðust fyrir framan hana og inn á staðinn. Svínasúpu-Gulla var ekki par sátt og reifst og skammaðist við dyravörðinn yfir þessum ósvífnu stelpuskjátum. Held hún hafi heldur ekki kæst þegar ég og Edda vorum að ræða það hátt og fjálglega í röðinni hversu gamalt fólk stundaði þennnan stað.. Greyið Gulla.
