sunnudagur, september 25, 2005
1. Ég er sökker fyrir gömlu fólki og dýrum. Í bíó get ég alveg horft á börn deyja en ef það er gamall sætur kall eða hundur þá hætti ég að geta horft.
2. Ég hef horft á Nágranna síðan ég var níu ára gömul og þar á undan horfði ég alltaf á Santa Barbara með ömmu. Grunar að ást mín á lélegu raunveruleikasjónvarpi og sápuóperum komi frá ömmu elskunni. Skilyrðing frá blautu barnsbeini.
3. Ég er haldin fóbíu bæði gagnvart heimabankanum mínum og öllum gluggapósti. Þess vegna veit ég aldrei almennilega hversu mikinn eða lítinn pening ég á. Mín fjármál koma sjálfri mér sífellt á óvart.
4. Ég er búin að vera í "átaki" (eða megrun á góðri íslensku) síðan ég var 19 ára eða í fimm heil ár. Átakið virðist ekki ætla að virka neitt rosalega vel miðað við allan þennan tíma.
5. Mér finnst varalitur gera mig hórulega. Nema eldrauði varaliturinn hennar Eddu við rauða kjólinn minn. Það er einhvernveginn bara classy.
