fimmtudagur, september 29, 2005
Íbúðin okkar er yndisleg á flesta kanta og með afar sterk karaktereinkenni. Gluggakarmarnir eru fúnir og þar sem helming glugganna er ekki hægt að loka algerlega er stanslaust ferskt loft í íbúðinni. Ferskasta loftið er samt inni hjá henni Ástu en hún nýtur líka hressandi regndropa á andlitið þegar hún sefur. Ofnarnir virðast bara hafa tvær stillingar -slökkt og sjóðandi heitt og því erum við annaðhvort á bikiní eða í Kraft-gallanum. Sömu sögu er að segja um sturtuhausinn en þar sem kaldar sturtur eiga samkvæmt kínverskum fræðum að vera góðar fyrir ónæmiskerfið þá hlýtur þetta bara að vera af hinu góða. Nábýlið er einnig talsvert meira en í Grafarvogskastalanum. Nágranni okkar í næsta stigagangi hefur mjög gaman af söng og leyfir mér (herbergin okkar liggja saman held ég) iðulega að njóta hæfileika sinna á söngsviðinu. Hún virðist hafa sérstaklega gaman af söngleikjalögum, Disneylögum og væmnum ballöðum. Á Eiríksgötunni er líka sérstaklega gott tækifæri til að gerast gluggapervert því önnur hlið íbúðarinnar gefur okkur innsýn inn í líf fjöldamargs fólks sem virðist ekki vera neitt feimið við að spóka sig. Ef út í það er farið þá er þetta upplagt tækifæri til að fá útrás fyrir sýniþörf og ýmsan almennan pervertisma. Síðast en ekki síst þá erum við með heimilisdraug eða álf sem við verðum mikið varar við. Vinur okkar skellir hurðum, kveikir á græjum, opnar ísskápa og talar við köttinn. Ég kalla hann þó vin því andrúmsloftið hérna er gott og kisu líður vel -kettir eru svo næmir sjáiði til.
