sunnudagur, október 30, 2005
Í bloggþurrð og lærdómsleiða datt mér í hug að deila með heiminum sögum af fjórða heimilismeðlim Eiríksgötunnar. Hún er yndisfríð. Stórvaxin, fölleit, skögultennt, bleiknefjuð, hvasseygð, vel hærð, skörungur hinn mesti og getur auðveldlega stokkið hæð sína í fullum herklæðum. Heimilismeðlimur númer fjögur er bæði eigingjarn og drottnunarsjúkur. Hann reynir að dylja það undir yfirborði ljúfleika og krúttleika en hið sanna eðli kemur alltaf upp á yfirborðið. Sól, eins og hún er kölluð, er yfirmaðurinn á Eiríksgötunni. Hún (og við hinar) erum með það á hreinu hver er drottnarinn og hverjir eru þrælarnir. Sól er þó gott yfirvald og leyfir okkur náðasamlegast að klóra sér, klappa og gæla við á alla kanta. Hún þarf afar sjaldan að refsa okkur fyrir slæma hegðun enda vel upp aldar ambáttir. Eins og sannri drottningu sæmir horfir hún á óverðuga þegna sína með fyrirlitningu -líkt og hún gerir meðan þessi pistill er ritaður. Hátignin situr hér mér við hlið og gyllt augnaráðið virðist segja orðalaust hversu tilgangslaus iðja lærdómur sé og hversu heimsk ég sé að fara ekki að fordæmi drottningar minnar og leggja mig bara.
