miðvikudagur, nóvember 16, 2005
Af hverju heilsa Íslendingar ekki hver öðrum? Eftir ótalmörg samtök við vini og vinkonur hef ég komist að því að eftirfarandi er mjög algeng upplifun: Stúlka gengur niður Laugarveginn og kemur auga á kunningja framundan. Stúlkan frýs, -á hún að heilsa? Ekki heilsa? Á hún að brosa? Kinka kolli? Stund sannleikans, og kunninginn með, nálgast óðfluga en stúlkan gerir ekki neitt. Labbar framhjá kunningjanum með fjarrænt starandi augnarráð og sýnir þess engin merki að kannast við hann. Kunninginn fyrir sitt leiti horfir í hina áttina með samskonar fjarrænt starandi augnarráð. Á djamminu heilsast þau hinsvegar með virktum, -gott ef ekki með kossi á báðar kinnar og þéttu faðmlagi. Nú spyr ég, hvað er málið með þetta? Og við erum ekki endilega bara að tala um eitthvað fyrrverandi hösldæmi. Nei. Bara venjulegt fólk og jafnvel af sama kyni og þú. Erlendis værirðu stimpluð sem snobbuð tík fyrir fullkomlega "eðlilega" hegðun hér heima -enda eru víst nýbúar og skiptinemar afar hissa yfir þessum þætti í menningu okkar Ísleninga. Kannski erum við bara svo hrædd um að hinn aðilinn vilji ekki kannast við okkur að við þorum ekki að taka frumkvæðið? Kannski finnst okkur landið svo lítið að ef þú ættir að heilsa öllum sem þú þekktir værirðu bara á blaðrinu allan daginn og hefðir engan tíma til að græða pening? Kannski finnst Íslendingum Íslendingar leiðinlegir eða kannski er þetta bara einhver misskilningur hjá okkur?
