fimmtudagur, janúar 12, 2006
Nú er svo komið að ég á engan pening og sumarlaununum hefur verið sólundað í kjánaskap og vitleysu. Námslánin eru nú ekki til að hrópa húrra fyrir og þar að auki útskrifast ég í vor. Vitrir menn myndu segja mér að hætta að grenja og fara að vinna. Vandamálið er hinsvegar að mér finnst leiðinlegt að vinna. Sem er ákveðin þversögn því mér finnst ákaflega skemmtilegt að eyða peningum. Og staðreyndin er sú að þótt ég myndi brjóta odd af oflæti mínu og fara að vinna (*hrollur*) þá er bara enginn sem vill borga mér fyrir að þræta eða slúðra við fólk, glápa á raunveruleikasjónvarp, eða fara á Kaffibarinn um helgar. Allavega ekki mér vitanlega.
