fimmtudagur, febrúar 23, 2006
Matsala dauðans.
Ég hata formlega matsöluna á Þjóðarbókhlöðunni. Mælirinn er loksins orðinn fullur. Fyrir það fyrsta er maturinn þar bæði vondur og dýr. Þetta er mér ráðgáta hvernig þeim tekst alltaf að láta hann líta vel og girnilega út bak við plastborðið en bragðast svo eins og sandpappír með mæjóslettu þegar á diskinn er komið. Ofsoðna hlandvolga kaffisullið þeirra er það dýrasta á háskólasvæðinu og núna fáum við enga áfyllingu. EN dropinn sem fyllti loksins mælinn var dónalegt viðmót starfsmanns þar í morgun.
Ég fór semsagt áðan í mesta sakleysi niður í kaffiteríu að hitta vinkonu mína í hádegismat. Hún var þar fyrir, búin að panta sér grillsamloku og sat og beið eftir matnum sínum. Þar sem hún var að bíða ákveð ég að tilla mér hjá henni þrátt fyrir að vera með nesti (sökum fyrrtaldra ástæðna)og ætluðum við svo að færa okkur yfir í nestishornið þegar maturinn hennar væri tilbúinn. Ekki var ég fyrr sest en starfsmaður kemur aðvívandi með ygglibrún á andliti, veifandi framan í mig vísitöng og skipar mér með þjósti að yfirgefa kaffihúsið. Hann tjáir mér á bjagaðri íslensku að nærveru minnar og nestisins sé ekki óskað og skal ég hafa mig brott hið snarasta. Ég lít í kringum mig á tómu kaffihúsinu, sé að einungis eitt borð er upptekið en segi þó dónalega útlendingnum kurteislega að ég sitji hér með vinkonu minni sem sé að bíða eftir mat. Síðan skulum við færa okkur.
Dónalegi útlendingurinn lætur sér ekki segjast enda vald hans, orðspor okurbúllunnar og örlög heimsins í veði. Færist hann nú allur í aukana og tjáir mér háum rómi hversu gríðarlegur dónaskapur það sé að sitja við þetta borð með samloku í poka. Maðurinn var orðinn rauður í framan og ég skildi varla orð af því sem hann sagði fyrir æsingnum nema lokaorðin "fagrdu strakks!". Vitiði það, ég hef bara sjaldan verið eins pirruð en af því að ég er orðin svo þroskuð fleygði ég hvorki í hann hníf né hella yfir hann kaffi eins og mig langði þó mest að gera. Eftir að hafa enn og aftur reynt að útskýra málavöxtu og fengið enn og aftur yfir mig dónaskap og brottvísanir segi ég bara hátt og snjallt NEI ég fer ekki fet -og horfi á hann manndrápsaugum. Held hann hafi ekki búist við því enda hvarf valdsmannsbragurinn af honum við augnaráðið og hann lötraði aftur bak við búðarborðið með skottið á milli lappanna. Er að spá alvarlega í að senda eigendum okurbúllunnar orðsendingu um hvernig starfsmennirnir þeirra séu að haga sér.
