mánudagur, apríl 10, 2006
Ímyndið ykkur bara krakkar mínir. Ferðalög, nýjir staðir, siðfágað og gáfað fólk, endalaus kokteilboð og veislur og allt þetta á launum. Hljómar eins og draumur í dós ekki satt? Ég eyddi helginni í alveg sérdeilis skemmtilega ráðstefnu NordicMun uppi í HR og kynntist þessu "framtíðarstarfi" mínu aðeins. Þar lék ég hlutverk Perú í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna og plottaði meðal annars samstöðu þróunarlanda og reyndi að pota inn alveg fáránlega óviðeigandi klásúlu í samninga ásamt hinum þróunarlöndunum, gerðist höll undir rússa (sem er alveg bannað fyrir S-Ameríkuland) og kynntist fullt af skemmtilegu fólki.
Það sem stendur upp úr eftir helgina var í fyrsta lagi alveg svakalega skemmtilegt námskeið í samningatækni sem maður að nafni Aðalsteinn Leifsson hélt fyrir okkur. Hef nú bara ekki upplifað það áður að sitja stanslaust í tvo og hálfan klukkutíma og missa ekki athyglina í eitt sekúntubrot. Mjög svekkt að vera ekki í HR því þá mundi ég taka kúrsinn hjá kallinum. Háskólinn í Reykjavík kom sterkt inn hjá þáttakendum, það er bara ekkert smá hvað þeir hugsa vel um nemendurna sína! Rektorinn og rekstrarstjórinn stjönuðu við okkur eins og við værum börnin þeirra og voru bara alveg yndislegar á alla kanta. Já og svo má ekki gleyma klósettunum, þar eru snyrtivörur í boði HR -takk fyrir kærlega. Annað sem stendur eftir var svo að fara í kokteilboð með sjálfum Hans Blix og tjatta aðeins við kjallinn. Ekkert smá gaman að fá að tala við hann persónulega og skiptast á skoðunum. Þetta er annars alveg yndislega sjarmerandi kall. Tók þó alveg steininn úr þegar hann var kominn í myndatöku með fimm stelpum en þá kom konan hans, sem var líka alveg jafn krúttleg, og dró hann burtu. Sagðist óttast um kallinn sinn með öllum þessum skvísum og svo hurfu þau flissandi á brott.
Stór hluti af dagskránni hjá okkur var einmitt kokteilboð og djamm þannig að heilsan á laugardeginum var, eftir tveggja tíma svefn, eftir aðstæðum. Var reyndar bara furðu hress megnið af deginum en í boði hjá Ólafi Ragnari á Bessastöðum helltist yfir mig þessi svakalega þynnka. Stóð í hring með Óla, tveimur norrænum sendiherrum og einum öðrum háskólanema og átti að heita í málefnalegum umræðum. Langaði hinsvegar mest að æla á skónna hans Ólafs og veit ekki hversu málefnaleg ég var í þessu ástandi hehehe. Enda hef ég það frá áreiðanlegum heimildum að alvöru diplómatar drekka ekki í kokteilboðum -þeir vinna. Ég sem gervi-diplómati mátti hinsvegar vera full og ógeðsleg. Takk fyrir það.
