fimmtudagur, júlí 13, 2006
Mynduð þið trúa eftirfarandi sögu frá smjörgreiddum og súkkulaðibrúnum Vínarbúa í opinni Gucci-skirtu? Fyrrnefndur Vínarbúi eyddi löngum stundum síðastliðna helgi við að segja undirritaðri frá lífi sínu og starfi. Kvaðst smjörpinninn vera menntaður sjávarlíffræðingur og sérhæfa sig í höfrungum. Soldið óvenjulegt fyrir Austurríkismann þar sem landið liggur ekki að sjó en látum það liggja milli hluta. Hélt þá sagan áfram og reyndist sjávarlíffræðingurinn vera búsettur á Hawai þar sem hann syndir iðullega með áðurnefndum villtum höfrungum sem hann hefur vingast við og þekkir persónulega. Eyða þeir löngum stundum saman meðal kóralrifja. En hörfrungaelskandi sjávarlíffræðingurinn lét hér ekki staðar numið. Sökum manngæsku og ást á börnum snýst starf hans einnig um að vinna með fötluðum börnum. Fötluðu börnin synda sumsé meðal vingjarnlegu villtu höfrunganna sér til andlegrar og líkamlegrar uppliftingar. Allt fyrir tilstuðlan smjörpinnans. Fylgdu nú ýtarlegar og væmnar lýsingar á níu ára stúlkunni Önnu og vini hennar úr sjávardjúpunum, höfrungnum Ocean Beauty. Nú spyr ég, er þetta sönn saga? Verðlaun verða veitt fyrir rétt svar.
