þriðjudagur, júlí 18, 2006
Saga dagsins fjallar um íbúðina mína hérna í Vín. Fyrir ófróða þá bý ég í mjög gömlu húsi í miðbæ borgarinnar og leigi þar herbergi hjá þýðverskri konu. Mjög áhugaverðri konu en hún er samt ekki efni þessarar sögu. Íbúðin sem ég bý í var hluti af ævafornu munkaklaustri og tilheyrði valdamikilli reglu um aldaraðir. Hér er því hátt til lofts og vítt til veggja eins og sæmir slíkum húsakynnum en það flottasta eru samt leynigöngin. Já þið heyrðuð rétt, leynigöngin. Hér eru sumsé göng sem lágu milli klaustra og kirkna af sömu reglu með útgönguleiðum á torgum og fleiri stöðum. Þessi göng eru í fullu fjöri enn þann dag í dag en því miður hafa borgaryfirvöld múrað fyrir allar inngönguleiðir útaf dópistum og rugludöllum sem voru farnir að stunda staðinn. Nágranni okkar hefur þó enn umráð yfir einhverjum búti gangnanna og heldur víst stundum partý þarna niðri. Þá lýsir hann allt með blysum, dúkar borð og leigir strengjasveit. Vonandi verður eitt stykki svona partý meðan ég bý hérna!
Kristnu munkarnir sem forðum réðu hér ríkjum eru nú farnir veg allrar veraldar en önnur regla annarrar trúar hefur tekið við völdum. Búddamunkar. Þeir hafa smám saman keypt upp allt húsið og eru óðum að breyta því í trúarlega miðstöð. Nú þegar er komin bænamiðstöð, veitingastaður og verslun. Flestir íbúarnir eru búddamunkar eða áhangendur trúarinnar og það er verið að byggja fleiri íbúðir uppi á þaki sem bara á að selja búddatrúarfólki. Hér hanga marglitir trúarfánar út um alla ganga og á vissum tímum heyri ég munkana kirja og hringja bjöllum.
