föstudagur, desember 24, 2004


Gleðileg jól!
Við hér hjá skutlunni viljum óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Vonandi eigið þið huggulegar hátíðarstundir með fullt af fjölskylduvæmni, hangiketi og skemmtilegum pökkum. TAKK fyrir mig :)


miðvikudagur, desember 22, 2004

Sagnfræðidjamm.
Dillon, próflokadjamm. Stemmari, ljótt fólk, hlaup, smygl inná Hagfræðidjamm. Áfengisleysi, áfengissmyglari, dans, eftirpartý, ekki eftirpartý, hangs, heim. Fínt. Fullur. Góða nótt.


þriðjudagur, desember 21, 2004

Ljúfa líf, ljúfa líf. -Burt á vængjum ég svíf..
Prófin búin. Lífið yndislegt. Í fyrsta skipti síðan ég gekk um gólf í bleyju bíða mín hvorki próf, verkefni, vinna né krónískur fjárskortur um jólin. Ég á því bæði nóg af tíma og peningum en gallinn er ég kann bara ekki á svona appslafelsi. Lífið kannski of ljúft? Í tilraun til að ná áttum ætla ég að leita á náðir náins vinar. Vinar sem lætur mig ætíð sjá hlutina í skýrara ljósi og ef ekki skýrara þá allavega frumlegar eða skemmtilegar. Ég er semsagt að fara á fyllerí. Adios suckers!


sunnudagur, desember 19, 2004

Hvítbjörninn ógurlegi..
Þynnkudýrið opnar rauðsprungið auga og gægist undan sænginni. Það verkjar í augun því ekki gafst tími til að taka úr sér linsurnar fyrir svefninn, vígtennurnar eru loðnar og bjórbragð uppi í munni. Augað lítur niður og sér að eigandi þess er íklæddur stuttu rússkinspilsi, með trefil um hálsinn og einn svartur hælaskór liggur til fóta. Björninn heldur enn krepptum hnefa utan um kokteilsósubox (opið) gærkvöldsins og rúmið er stráð franskakryddi og mæjonesslettum. Stórt svart ljón liggur við hlið rauðeygða bjarnarins og rífur græðgislega í sig afganginn af hamborgaranum. Eftir langan umhugsunarfrest hættir björninn sér út úr hlýju bæli sínu, ráfar fram á bað og öskrar upp yfir sig þegar hann sér ófreskjuna í speglinum.. Soldið spes jólastemmning.


laugardagur, desember 18, 2004

It´s my party...
Fer að líða að aðventu samkvæmt mínu dagatali. Prófin búin, bara ein tímamóta ritsmíð eftir og svo taka við jólagleði og gjafirnar. Er reyndar ekkert "undirbúa" neitt fyrir hátíðarnar eins og flestir telja heilaga jólaskildu sína að gera. Ég á engan jólakjól og ætla ekki að kaupa neinn. Svefndyngjan lítur út eins og bæli eftir bóka- og blaðaóðan svartbjörn. Hef haldið áfram hefðinni að svara aldrei jólakortum enda fækkar árlega í staflanum sem ég fæ sendan -bara þeir þrautseigustu eftir en þeir hljóta líka að gefast upp á endanum. Ekki hefur verið fest kaup á neinum jólagjöfum enda fæstar ákveðnar og hef ekki hugsað mér svo mikið sem að stíga fæti inn í eldhúsið hvað þá heldur að baka! Það sem ég hef hinsvegar hugsað mér er að hafa alltaf slökkt ljós í bjarnarhellinum og rómantískar blikandi jólaseríur, klæðast fötum seinasta árs, borða kökurnar sem mamma kaupir úti í Bónus og rimpa öllum jólagjafakaupum af í Kolaportinu. Það er hugurinn sem gildir ekki satt? -Nema reyndar hjá mér en ég vill bara eitthvað dýrt.


sunnudagur, desember 12, 2004

Dísus.
Jæja ég sá við þessum útsmognu Erasmusnemum. Það var bara ekkert spurt um blessaða bókina á prófinu og sparaði ég mér þar með hellings tíma í að lesa hana ekki. Múhahahahahaaaaa!!! Var ofsalega kát eftir gott gengi í Afríkuprófi þar til elsku Davíð minn veiktist síðan í gær og tók mig mikið átak og marga klukkutíma að koma honum aftur í gang. Hann tók uppá þessu líka í síðustu jólaprófum helvískur.. ég sá samt við honum þetta árið og var með backup af öllum glósum. Hann er annars orðinn frískur núna. Já og svo á víst Tálkvenndið afmæli í dag. TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN GAMLA GEIT :)


laugardagur, desember 11, 2004

Meira tuð og bara alls ekkert stuð.
Ég er stundum svo vonsvikin yfir öðru fólki. Til dæmis núna. Mætti æðislega snemma á Þjóðarbókhlöðuna, náði að skríða undir járnhliðið þegar þau opnuðu og allt og ætlaði aldeilis að ná í eina af tveimur bókum á Námsbókasafni. Þessum sömu og ég var að garga yfir í nýlegri færslu hvað varðar skítuga Erasmusnema. Nema hvað, að sjálfsögðu, þegar ég kem uppá fjórðu hæð þá eru bara bækurnar ekki þar! Minni á að ég var fyrst uppá hæðina. Semsagt, einhver "sniðugur" er búinn að fela ritið einhversstaðar á safninu til sinna einkanota. Útskýrir af hverju ég fann aldrei blessaða bókina síðastliðna viku.. Núna er ég að fara í próf eftir 3 klukkutíma og get ekki lesið aðalnámsefnið fyrir próf. Get ekki keypt hana því það var pantað of lítið og eina Hlöðueintakið er "horfið" á dularfullan hátt. Frekar svekkjandi eiginlega. Er að spá í að gerast ný-nasisti og útlendingahatari til að fá útrás fyrir reiðitilfinningar mínar varðandi þetta mál alltsaman.


miðvikudagur, desember 08, 2004

Kisa mín ljónshjarta.
Það er ekki tekið út með sældinni að vera bara eins árs. Ljónahjörðin á heimilinu var öll úti í garði að spóka sig þegar komu þrumur og eldingar fyrr í dag. Hugrökku ljónin brugðust illa við og líkaði vægast sagt ekki við þessa nýju lífsreynslu. Tóku ólympíusprett inn og óttuðust sennilega heimsendi. Litla rúsínan mín var að sjálfsögðu mesti hræðslupúkinn og fannst eini öruggi staðurinn á heimilinu vera undir peysu hjá mér. Awwww.. svona er ég eigingjörn en mér fannst æði að fá að passa litlu prímadonnuna. Yfirljónynjan var aftur á móti fljót að jafna sig enda lifað fern áramót með mun meiri ljósadýrð og hávaða en Þór þrumuguð býður uppá. Hún hélt bara áfram uppteknum hætti að siða til heimilisfólkið. Í dag kom yfirljónynjan a.k.a.,Ofur-Kisa ,mér til bjargar þegar litla systir pyntaði mig með kitli. Ósvífna systirinn uppskar kisuhvæs og bit í bakið fyrir fantaskapinn. Þessi köttur er alveg met.


þriðjudagur, desember 07, 2004

Kertaljós og kósí.
Stundum er nú alveg agalega huggulegt að vera í prófum. Sérstaklega þegar vindurinn hvín fyrir utan og frostrósirnar hrannast upp í glugganum. Þá sit ég í hægindastól með kaffidrykk og jólabakkelsi og sýg í mig fróðleik bókanna við rómantískt kertaljós. Þetta er þó bara suma daga en aðra tekur stress og morgunfúllyndi völdin. Eins og í gær. Aumingja litlu menntaskólakrakkarnir sem sátu í námunda við mig. Fúllyndari og gribbulegri kellingu var ekki að finna á Þjóðarbókhlöðunni og fengu þau hvæs ef svo mikið sem flettu smábarnabókunum of hátt.. Það var hinsvegar í gær en í dag elska ég ykkur öll. Te quiero, mi amor, mi vida, mi corazon Islandesa.. te quiero.


mánudagur, desember 06, 2004

Helvítis fokkings fokk!!
Ég er brjáluð! Brjáluð segi ég! Hata Þjóðarbókhlöðuna og HATA afríkukúrsinn! Af því að kennarinn minn er asni þá pantaði hún bara 5 bækur fyrir 50 manna kúrs og verðum við þá að leika leikinn "Survival of the fittest" til að tryggja okkur aðgang að þessari einu sem fávitinn pantaði á Hlöðuna. Var mætt tíu mínútúm eftir opnun í morgun, hélt ég væri nú aldeilis í góðum málum en neiiiii, ekki aðeins var bókin farin heldur voru bara nær engin sæti eftir á helvítis staðnum. Þjóðarbókhlaðan er núna full af ískrandi menntaskólakrökkum sem sitja í sætunum mínum og einum skítugum útlending með bókina mína. GUrrrrrrrrrr


laugardagur, desember 04, 2004

Jólastemmningin í ár.
Hinn árvissi atburður er genginn í garð. Jafn viss og koma Stekkjastaurs er hin árlega tiltektarmanía á mínu menningarheimili. Það bregst ekki að um leið og ég dreg upp bók og hef próflestur að þá fær móðir mín óslökkvandi löngun í ryksuganir, háværa tónlist, hurðaskelli og að draga antíkhúsgögn hallarinnar eftir gólfinu. Met var slegið í dag sem ætti alveg örugglega erindi í heimsmetabók kenndri við Guinnes. Tókst úrræðagóðri móður minni, óþreytandi í skemmtiatriðum jólaprófanna, að ryksuga sófann fyrir framan dyngju mína í þrjá klukkutíma. Án ýkna. Það þarf sko þrautsegju og járnvilja til þess. Núna eru þessvegna staðsettir þrír flóttamenn frá Grafarvogi á Þjóðarbókhlöðunni. Einn í menntaskólaprófum, einn í stúdentsprófum og sá gáfaðasti í Háskólaprófum. Gleðilega aðventu mamma.


Stelpa, tvíburi, háskólanemi og sendiráðsstarfsmaður sem búsettur er í Vínarborg.

Tilvitnun mánaðarins:
Anyone who lives within their means suffers from a lack of imagination.
Oscar Wilde

- Ítaliufarinn
- Tai-landsfarinn
- Heimsreisufarar
- Sigga skokk
- Sauðurinn
- Tálkvenndið
- Mama Ace
- Hlibbið
- HuldaDögg
- Vera McBeal
- Thora-Spanjó
-
Bassaleikarinn í Roads
- Mr.Pölson
-
Kellingavæl
-
Siggaligg

- febrúar 2003
- mars 2003
- apríl 2003
- maí 2003
- júní 2003
- júlí 2003
- ágúst 2003
- september 2003
- október 2003
- nóvember 2003
- desember 2003
- janúar 2004
- febrúar 2004
- mars 2004
- apríl 2004
- maí 2004
- júní 2004
- júlí 2004
- ágúst 2004
- september 2004
- október 2004
- nóvember 2004
- desember 2004
- janúar 2005
- febrúar 2005
- mars 2005
- apríl 2005
- maí 2005
- júní 2005
- júlí 2005
- ágúst 2005
- september 2005
- október 2005
- nóvember 2005
- desember 2005
- janúar 2006
- febrúar 2006
- mars 2006
- apríl 2006
- maí 2006
- júní 2006
- júlí 2006
- ágúst 2006
- september 2006
- október 2006
- nóvember 2006
- desember 2006
- febrúar 2007

- blogger
- blogskins
- haloscan
- myndasmiðurinn
- hönnuðurinn


Site Meter