laugardagur, apríl 30, 2005

Rómantísk kvöldstund.
Það á víst að heita svo að ég sé í prófum og þar af leiðandi má ég víst ekki djamma. Er hins vegar búin að gera allt sem mér dettur í hug til að fresta lestrinum svo sem eins og taka til, fara í ræktina, þrífa bílinn, göngutúr með köttinn, blogga, elda kvöldmat, horfa á sam-norræna eurovison þáttinn, blaðra í símann og nú loks msn. En ekki dugir að klína kúknum alveg út í buxurnar þannig nú skal málamiðlað. Kertaljós, rauðvínsglas og fræðibækur í stjórnmálaheimspeki. Hver þarf djammið?










föstudagur, apríl 29, 2005

Einmanna og ósiðleg.
Hinn svokallaði lærdómsfélagi sveik mig í morgun þannig núna sit ég, enn á ný, alein með litlu menntaskólakrökkunum á hinni ógurlegu Bókhlöðu. Einhverra hluta vegna ákvað ég í þreytumóki í morgun að klæða mig í stysta pils í heimi þannig ég er ekki bara einmanna barn, ég er líka dónaleg. Ég og föt erum undarleg saman. Á djamminu vil ég helst klæðast síðbuxum og rúllukragapeysum en við lærdóminn klívitsbolum og snípsíðum pilsum. Kannski vantar mig bara stílista.










fimmtudagur, apríl 28, 2005

Ógnvaldur háskólasamfélagsins.
Ung kona á þrítugsaldri læðist niður í dýflisu hallarinnar og reiðir fram pening. Ég ætla að taka þetta með mér, hvíslar hún og horfir flóttalega til beggja hliða. Leið hennar liggur nú upp í hæsta turn kastalans og hún leggur ótrauð af stað. Skáskýst fram hjá vörðum og eftirlitsmönnum, hoppar yfir lítil börn á vegi hennar, forðast með öllu að ná augnsambandi við nokkurn mann og gætir þess vandlega að hella engu niður af dýrmætum vökvanum. Hún kemst klakklaust upp í hallarturninn og er svo nálæg. Svo hræðilega nálæg. Langi gangurinn að dyngju hennar framundan er þó hættulegasti vegkafli leiðarinnar og afar vel varðaður. Hún dregur djúpt andann, felur elexírinn í töskunni og sendir yfirmanni varðanna geislandi bros þegar hún gengur fram varðstöðinni. Hann grunar ekki neitt og brosir á móti. Loks kemst hetjan okkar á leiðarenda og getur hvílt spenntar taugar sínar. Henni tókst það! Það er sko mikið á sig lagt fyrir kaffisopa á Þjóðarbókhlöðunni.










miðvikudagur, apríl 27, 2005

Harðsperrur.
Rosalega hata ég harðsperrur. Þú ert búin að vera ofboðslega dugleg í ræktinni og í stað þess að líkaminn verðlauni þig með gríðarlegri vellíðan fær maður þennan fjanda. Einu sinni eftir afró tíma fékk ég svo mikla strengi að ég gat varla labbað, ekki staðið upp af stólum og alls ekki sest á klósettið nema með miklum harmkvælum. Að vera í tíma uppi á þriðju hæð í Árnagarði var tortjúr. Spítukall dauðans með þjáningasvip hins dauðadæmda sem kjagaðist á milli hæða að sækja kaffi.










mánudagur, apríl 25, 2005

Krúttlegur Hitler.
Fór með litlu systur í bíó í gær. Stúlkan sú hefur fengið Kjærnested gáfurnar í arf enda ekki lengi að sjá að söguleg bíómynd jafngilti lærdómi fyrir próf í dag. Myndin var annars ógeðslega góð enda er maður orðinn langþreyttur á Hollywood froðu og hressandi að sjá eitthvað bitastæðara. Allir leikararnir í þessari mynd voru snilld. Gaurinn sem leikur Hiter var frábær, sem og einkaritarinn hans, sem og bara allir. Eva Braun var alger partýgella ef taka á myndina trúanlega. Dansandi uppi á borðum með meiru.










sunnudagur, apríl 24, 2005

Unnustinn.
Jesss!! Nýji kagginn er loksins orðinn skítugur. Er búin að hlakka til í heila viku að fá að dútla við hann. Hef orðið að sætta mig við að klappa honum í millitíðinni. En núna verður haldið út í sólina með alvæpni. Heitt vatn í fötu, bílasjampó, mjúka tuskur, garðslöngu og loks megabónið sem ég keypti. Hef sjaldan verið eins kát yfir tiltekt. Gripurinn sem hingað til hefur gengið undir nöfnunum Unnustinn, Kagginn, Þruman eða The Silver Bullet er í þann mund að fá skírn. Eftir mikla leit og margar góðar uppástungur er ég búin að þrengja þetta niður í tvö nöfn sem hæfa tryllitækinu. Spænski sjarmörinn Alejandro eða hinn breskættaði Mr. Bond. Bæði finnst mér hæfa honum einstaklega vel og sýna hans mjúka eðli ásamt eðlislægum töffaraskap.










laugardagur, apríl 23, 2005

Í sumar ætla ég að...
-safna freknum
-ganga á Esjuna
-ganga á Hekluna
-hjóla í vinnuna
-taka tvö sumarpróf
-klára að lesa Laxness
-fá frí aðra hverja helgi
-semja ódauðlega skáldsögu
-fara til Danmerkur, Noregs eða Kúbu.
-gera fullt fullt fullt af öðrum skemmtilegum hlutum..










fimmtudagur, apríl 21, 2005

Lóan er komin að kveða burt snjóinn!
.
Vá ég gleymdi að það er sumardagurinn fyrsti í dag. Hvar er sumardagsgjöfin ég bara spyr? Í gamla daga fékk maður skóflu og fötu eða kannski sippuband og bolta en núna fæ ég bara ritgerðir og verkefni. Þetta kalla ég sko léleg bítti. En sem betur fer er besta sumargjöfin enn í gildi. Fæ enn ljúfan sting í hjartað og fiðring um líkamann þegar ég horfi út um gluggann og sé Ísland fagra Ísland klæðast sumarfötunum. Esjan bosir sínu blíðasta, fuglarnir kvaka og grasið farið að grænka. Gleðilegt sumar.










Öldrunarsjúkdómar.
Nú þegar maður er komin hátt á þrítugsaldurinn er heilsan byrjuð að gefa sig. Er búin að vera hræðilega tussuleg alla vikuna með hausverki, ógleði, beinverki og nú síðast augnsýkingu. Fyrir manneskju sem verður aldrei veik er þetta bara of mikið af hinu góða. Þess vegna lifi ég enn í bullandi afneytun um eigin ellitengd veikindi og ákvað að skella mér út í gær. Nánar tiltekið í "kaffiboð" [bjórdrykkju] með samnemendum hjá honum Þorskastríðsfrænda þar sem ég eyddi tveimur klukkutímum í að þamba sprite og hlusta á umræður um enska boltann. Mjög spes kvöldstund skulum við segja. Hafði nú afar lítið til málanna að leggja í boltaumræðum auk þess sem ég þurfti á öllum mínum kröftum að halda til að gubba ekki á sessunauta mína þannig að ég beilaði úr kaffiboðinu góða og fór að hitta krakkana. Þau áttu að vera í einhverju Erasmuspartýi en þegar ég kom þá voru þar bara 10 íslenskir vinir mínir og einn blindfullur ameríkani. Ekki mikið útlendingapartý það. Augnsýkingin var hinsvegar ákveðin í að leyfa mér ekki að njóta neinnar skemmtunar og var því viðdvölin í "útlendingapartýinu" innan við tíu mínútur. Kvöldið endaði sumsé á að ég og minn trúfasti nýji kaggi brunuðum heim í Grafarvog og eftir tregafulla kveðjustund var haldið í háttinn. Lítið sexapartei þetta kvöld.










þriðjudagur, apríl 19, 2005

Morgunsalsa.
Kokktell af fersku grænmetisfæði, vítamínum, lærdómi og líkamsrækt gerði kraftaverk fyrir veika aumingjann í gær. Eftir daginn var líðanin bara allt önnur og í dag er ég stórhress. Meira að segja svo hress að ég vaknaði fyrir klukkan átta (sjálfviljug) og skellti mér í ræktina. Það gerist sko sjaldan skal ég segja ykkur! Planið var að fara hópferð í morgunleikfimi en ég reyndist sú eina spræka. Þurfti að draga Ástu vinkonu út á hárinu og hinn svokallaði "ræktarfélagi" svaraði ekki símanum. Hún er heppin að ég var sein fyrir því annars hefði ég mætt á gluggann hjá henni. Leikfimistíminn var yndi. Fórum í Latin dans sem er mesta bjútís kellingaleikfimi í heimi. Mjúkar mjaðmasveiflur og hliðar saman hliðar spor. Ekkert voðalega challenging kannski en gaman að vera best af öllum hópnum. Það gerist heldur ekki oft enda sjaldan verið kölluð mikið dansfífl.










mánudagur, apríl 18, 2005

Óréttlæti heimsins.
Lítill aumingi situr lasinn á bókhlöðunni. Einmitt þegar vika dugnaðar og ritgerðarskila átti að eiga sér stað. En nú þýðir ekkert væl eða afsakanir því að skilafrestur rennur út á föstudaginn og enginn tími er fyrir rúmlegur eða vorkunn. Eyminginn er í bullandi afneitun með líkamlegt ástand sitt og neitar að viðurkenna hita eða undarlegan haus. Hann tók meira að segja ræktardótið með og er harðákveðin að skella sér í smá púl á eftir. Kannski minnkar hitinn við það?










laugardagur, apríl 16, 2005

Síðasta kvöldmáltíðin.
Í gær var lokadjammið fyrir próf. Dró stelpurnar með mér á málþing í Reykjavíkurakademíunni til að hlýða á sagnfræðileg viðfangsefni og drekka bjór. Held ég hafi nú verið sú eina af fjögurra laufa smáranum sem var eitthvað að fíla ræðurnar en bjórinn var vinsæll. Reyndi mitt besta til að draga alla, og þá meina ég alla, á Kaffibarinn síðar um kvöldið en það tókst ekki sem skildi. Gerði tilraunir með sms sendingar á að ég held alla phonebookina mína. Var að skoða þessar skemmtilegu sendingar og voru þær tvíþættar. Annarsvegar "Allir á Kaffibarinn!" og hinsvegar tómt sms þegar ég nennti ekki að skrifa lengur. Fáir reyndust þó nægilega smekkvísir í skemmtistaðavali utan einn eiturhressann sagnfræðikennara sem djammaði með okkur Siggu. Stakk síðan Siggu litlu skokk af og skokkaði á Hressó þar sem við hittum gamla bekkjarfélaga bæði úr Versló og Húsaskóla. Endalaust fyndið hvað fólk breytist lítið.










miðvikudagur, apríl 13, 2005

Brjóst á Bókhlöðunni.
Annar dagur þemans er í dag. Þemað er klívits. Þáttakendur eru nokkrar ungar námsmeyjar við Háskóla Íslands. Gerðar eru félagsfræðilegar athuganir á námshæfni og umhverfisáhrifum sökum klæðaburðar. Fáum við til dæmis betri þjónustu af starfsfólki? Standa ungir herramenn upp og láta okkur eftir borð (talið í hæsta máta ólíklegt)? Er Bókhlaðan staðurinn til að hössla? Þetta og margt margt fleira í hinni æsispennandi þáttaröð Brjóst á Bókhlöðunni.










þriðjudagur, apríl 12, 2005

Hinn útvaldi.
Ég sá mynd af honum á tölvuskjá og vissi strax að við ættum samleið. Hann er æðislegur. Allir sem þekkja hann tala vel um hann. Hann er alveg rosalega vinsæll. Fallegur, traustur, ábyrgur og góður í fjármálum. Við höfum ekki enn hisst en það er búið að segja honum frá mér og honum leist jafn vel á mig og mér á hann. Það mætti segja að hann sé frátekinn. Við munum hittast næstkomandi fimmtudag og þá veit ég að ekki verður aftur snúið. Líf okkar beggja mun ekki verða samt.










sunnudagur, apríl 10, 2005

Menningarhornið.
Var loks að líta á yfirlit alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar og komst að því að það eru á að giska 30 myndir sem mig langar að sjá. Þar af allavega fimm sem ég hreinlega verð að sjá. Hotel Rwanda fær forgang, Der Untegang, House of flying daggers, Motorcycle diaries og Shake hands with the devil. Samt varla tæmandi listi. Ef ég væri ekki á kafi í prófum, ritgerðarskrifum og ómenningu mundi ég kaupa mér passa á þetta allt. Glæsilegt framtak þessi hátíð!










þriðjudagur, apríl 05, 2005

Fræðsludrekinn.
Snemma í janúar dundaði ég mér við að raða kúrsunum mínum í skemmtilegheitaröð og dæmdi ég einn þeirra samstundis leiðinlegan. Mætti dæsandi í tíma, skrifandi glósur með hangandi hendi og fýlusvip. En ekki lengur. Nú kem ég glaðbeitt á svæðið, uppfull af eldmóði og stari einbeitt í augu uppfræðarans mikla meðan hann spýr yfir okkur vitneskju af jafn miklum móði og dreki spýr eldi. Hvað gerðist spyrjið þið? Nú, ég sótti bara ritgerðina mína upp í Odda um daginn. Og hvað með það, spyrjið þið aftur? Eftir að hafa bölvað téðri ritgerð í margar vikur fyrir að vera hræðilega léleg, þora ekki að sækja hana, bölva meira og baktala tímana fékk ég 10. Meira að segja 10+. Geri aðrir betur. Þetta hafði þau töfraáhrif að núna eru téðar kennslustundir bara hinar skemmtilegustu. Hvernig datt mér líka annað í hug en að kostningakerfi og kjörtölur væru áhugaverðar!










mánudagur, apríl 04, 2005

Húsnæðismálin í höfn.
Loksins fann ég leið til að fjármagna húsnæðiskaup. Fannst þetta allt frekar erfitt sökum hástemmds kaupverðs þrátt fyrir auðvelt aðgengi lána á rosalega hagstæðum vöxtum. En núna er þetta komið á hreint. Ég er komin í samband við tvo fjárfesta og saman ætlum við að kaupa símann. Ekkert mál að fá lán fyrir þessu. Seljum svo 30 prósentin á fimmföldu verði til almennings eða Baugs og græðum feitt. Ó já, það eru ekki bara fasteignasalar og bankar sem græða á góðærinu.










sunnudagur, apríl 03, 2005

Lærdómur og löðrungur.
Þetta var eitthvað skrítin helgi. Ætlaði upphaflega að fara með familíunni upp í sveit og læra ofsalega mikið milli þess að fara i heilsusamlega göngutúra en endaði svo auðvitað kyrr í Reykjavík og á djamminu. Lærði samt –smá. Fórum í SingStar partý í gær heima hjá Sigrúnu og það fannst mér skemmtilegt. Eiginlega alveg ofboðslega, gríðarlega, agalega skemmtilegt enda var mín orðin nokkuð agressív með míkrafóninn undir lokinn. Varla hægt að slíta mig frá tækinu og heimtaði í sífellu að fá að taka einsöng. Ég ætti að verða fræg söngkona. Fórum síðan á Hjálma og Jagúar og það voru alveg hreint geggjaðir tónleikar. Áfengisneysla hafði þó komist á það stig að ég var farin að ráfa stefnulaust um staðinn og þar sem stelpurnar voru í viðlíka ástandi var ákveðið að skella sér á nýja uppáhalds, Kaffibarinn. Þar beið okkar röð dauðans líkt og venjulega en þar sem maður er nú ekkert blávatn í djammmálefnum var ég viðbúin. Dró upp smá nesti (bjór úr ÁTVR) meðan við biðum sem var vel þeginn meðal raðafólksins. Þegar inn fyrir dyrnar var komið var líkt og allir hefðu sniffað kók í nös, geðveikin, árásargirnin og dramað alsráðandi. Þar var mér úthlutað öðrum löðrungi ævinnar, af sömu manneskju og gaf þann fyrri. Rifrildi, trúnó, bútísjeikin, kríp frá Nígeríu og barinn. Meikaði ekki dramað, enda hafði ég ekki tekið neitt kók, og ákvað að beila. Skokkaði á Bitabílinn með Sigrúnu og fundum svo yndislegan mann sem splæsti á okkur “ungu dömurnar” leigubíl heim. Munar um minna þegar maður býr uppí Grabba. Þegar heim var komið átti ég svo yndislega stund með mínum trúföstustu vinum. Sukkmatnum og kisunum sem voru að reyna að éta frá mér óhollustuna. Respect.










föstudagur, apríl 01, 2005

Dugnaðarforkar.
Núna, akkúrat núna, klukkan 12 á föstudagskvöldi erum við Sigrún vinkona að læra. Ég er ekki full, ekki í bíó, ekki að horfa á sjónvarpið eða á tónleikum heldur að læra. Þetta er örugglega í fyrsta skipti í vetur, ef ekki bara ever, sem það gerist. Djöfull er ég stolt. Að springa úr stolti. Litla hjartað mitt gladdist enn frekar fyrr í kvöld þegar ég sá að ritgerðin í stjórnmálaheimspeki á ekki að skilast fyrr en á miðvikudag en ég hélt að skilafrestur væri á mánudag. Stundum borgar sig að lesa kennsluyfirlitið. Núna finnst mér ég eiga skilið að gera eitthvað skemmtilegt. Ræktin í fyrramálið og svo djamm er alveg málið.










Stelpa, tvíburi, háskólanemi og sendiráðsstarfsmaður sem búsettur er í Vínarborg.

Tilvitnun mánaðarins:
Anyone who lives within their means suffers from a lack of imagination.
Oscar Wilde

- Ítaliufarinn
- Tai-landsfarinn
- Heimsreisufarar
- Sigga skokk
- Sauðurinn
- Tálkvenndið
- Mama Ace
- Hlibbið
- HuldaDögg
- Vera McBeal
- Thora-Spanjó
-
Bassaleikarinn í Roads
- Mr.Pölson
-
Kellingavæl
-
Siggaligg

- febrúar 2003
- mars 2003
- apríl 2003
- maí 2003
- júní 2003
- júlí 2003
- ágúst 2003
- september 2003
- október 2003
- nóvember 2003
- desember 2003
- janúar 2004
- febrúar 2004
- mars 2004
- apríl 2004
- maí 2004
- júní 2004
- júlí 2004
- ágúst 2004
- september 2004
- október 2004
- nóvember 2004
- desember 2004
- janúar 2005
- febrúar 2005
- mars 2005
- apríl 2005
- maí 2005
- júní 2005
- júlí 2005
- ágúst 2005
- september 2005
- október 2005
- nóvember 2005
- desember 2005
- janúar 2006
- febrúar 2006
- mars 2006
- apríl 2006
- maí 2006
- júní 2006
- júlí 2006
- ágúst 2006
- september 2006
- október 2006
- nóvember 2006
- desember 2006
- febrúar 2007

- blogger
- blogskins
- haloscan
- myndasmiðurinn
- hönnuðurinn


Site Meter