þriðjudagur, maí 31, 2005

Upplýsingamiðstöðin.
Fékk ekki nógu hátt í Þorskakúrsinum. Búin að hætta ófáu vináttusambandinu vegna leiðindaumræðna um fisk og svo var ég ekki einu sinni hæst. Hnuss. Hannes Hólmsteinn er greinilega letipúki. Tók próf hjá honum fyrir ár og öld en kallinn er ekki enn búinn að sjá sér fært að fara yfir þau. Hræðilega pirrandi að bíða eftir einkunnum. Er svo forvitin að ég kíki inn á HI síðuna svona fimm sinnum á dag. Komu sirka 300 brjálaðir krakkagemlingar uppi Þjóðveldisbæ í dag. Ekki öfunda ég kennara af þessum "krúttum". Hlakka til helgarinnar. Langar á djammið og langar í ný föt. Svör við Eurovision getrauninni eru komin inn á kommentakerfið fyrir áhugasama.


sunnudagur, maí 29, 2005

Urð og grjót..
-upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.
Klífa skriður, skríða kletta,
velta niður, vera að detta.
Hrufla sig á hverjum steini,
halda að sárið nái að beini.
Finna hvernig hjartað berst,
holdið merst og tungan skerst.


Lengsta ljóð Íslandssögunnar, man eftir grát og gnístan tanna meðan öll sjöhundruð erindin voru lögð á heilann í níu ára bekk. Ljóðinu var þó greinilega það vel hamrað inn í heilann, þarna í minni ó svo fjarlægu æsku, að því skaut upp í hugann í gærkveldi og ég kunni það enn. Það var yndislegt veður, kvöldsól, hlýtt og blankalogn þegar mér datt í hug að skella mér í smá göngutúr. Ákvað að klífa Búrfellið og hangandi í klettabelti ofarlega á fjallinu kyrjaði ég þessar línur, þar sem ég þrýsti mér eins og fluga að bröttum hömrunum og sá eftir að hafa lagt út í þessa vitleysu. Með fimi flóðhestsins skreið litla flugan yfir erfiðasta hjallann og vóg sig upp á tindinn. Það var samt þess virði því útsýnið var geggjað og mér leið eins og drottningu dalsins. Tók einn góðan DiCaprio á þetta og öskraði af fjallsbrúninni yfir þegna mína í dalnum ,,I´m the king of the wooorld!"


laugardagur, maí 28, 2005

Rigningarsuddi, sjöhundruð millibara lægð, norð-norð austur..
Það er hitabeltisskúr í sveitinni og þannig endanlega vonlaust að fá sólbrúnku í dag. Vinnuveitendur mínir elskulegir hafa þó séð við veðrinu þar sem í Búrfellshöllinni er eitt stykki ljósabekkur en för minni er einmitt heitið á fund téðs ljósabekkjar eftir vinnu. Skítt með húðkrabba og hrukkur, fer bara í strekkingu á 30 ára afmælinu. Komu annars heilir fjórir gestir í rigningunni í morgun. Ég var svo ofsalega kát að sjá annað fólk að það mætti þeim sleikjulegasta og áhugasamasta leiðsögukvenndi sem sögur fara af. Gott að koma upp í þjóðveldisbæ núna gott fólk, þið fáið eðal þjónustu hjá einmanna einbúanum á bænum. Vonum bara að hann gerist ekki sækó í einverunni og taki ykkur til fanga. Haldi ykkur tjóðruðum inni í lokrekkju til undaneldis eða bindi ykkur eins og Ingjaldsfíflið úti á túni.


fimmtudagur, maí 26, 2005

Mætt í óbyggðirnar!
Þjóðveldisbærin var það heillin, og annað árið í röð. Búin að skúra, skrúbba, plögga, gæda og guð má vita hvað þessa vikuna. Annars þá fer þetta voðalega rólega af stað. Lítið af túrhestum svona snemma sumars þannig ég bara planta mér í lokrekkjuna og les í huggulegheitum eða skelli mér í "sólbað" á milli gesta. Það er nebblega ennþá skítakuldi þótt sól skíni í heiði. Gerði heiðarlega tilraun til smá brúnku áðan en endaði dúðuð í úlpu og með stórt heklað sjal. Vindurinn blés svo harkalega að hárið var sífellt í augunum á mér og blaðsíðurnar í bókinni vildu ekki vera kyrrar. Gafst upp og leitaði aftur á náðir lokrekkjunnar.

P.s. Ef einhver vill annars ná í mig þá næst illa gsm samband hérna þannig að talhólfsskilaboð eða Emil blíva, já eða vinnusíminn minn sem er 488-77113.

P.p.s. Ég á afmæli í næstu viku... bara svona að koma því á framfæri :)


mánudagur, maí 23, 2005

Hótel Borg.
Ung Reykjavíkurmær mælir sér mót við einn þekktasta rokkara og tónlistargúru Íslands þótt víðar væri leitað. Óstyrk lýkur hún upp dyrunum á Hótel Borg og gengur langan hótelganginn í átt að herbergi mannsins. ,,Þetta hef ég aldrei gert áður” hugsar stúlkan óstyrk og ekki er laust við að höndin skjálfi eilítið þegar hún ber dyra. Allur kvíði hverfur þó eins og dögg fyrir sólu við innilegar móttökur rokkarans sem tekur í hönd hennar um leið og þau hverfa inn í myrkvað herbergið. Nákvæmlega klukkustund síðar ljúkast herbergisdyrnar upp og maðurinn gengur rösklega út í sólskinið með stúlkuna sér á hæla. Fundurinn gekk vel og þau kveðjast með kossi. ,,Það sem maður gerir ekki fyrir peninga” hugsar stúlkan þegar hún horfir á eftir rokkdýrinu hverfa í kvöldsólina og glottir út í annað.


Hressleiki á Hressó.
Skellti mér á eitt skemmtilegasta Eurovision djamm "ever" í gærkveldi. Held reyndar að þessi keppni sé að fara fjandans til. Hví var táknmálsviðbjóðurinn frá Lettlandi ofar en snillingarnir frá Noregi? Evrópubúar hafa ekki nokkurn smekk. Grét nokkuð yfir því að frændur okkar unnu ekki keppnina og grét enn meira yfir því að uppselt var á Pallaballið á Nasa en tárin voru fljót að þorna.

Skellti mér síðan með liðinu á Hressó en Heiðar Austmann spilaði like he´s never played before. Var geggjuð stemmning og dansaði af mér rassgatið. Mjög gott eiginlega þar sem ég hef ekki farið í ræktina í margar vikur og styrki núna Lindu Pé mánaðarlega með beinum peningagreiðslum. Tel annars að þessi E-pillu dansvíma mín hafi verið Bjarna nokkrum Pálssyni og töfrateppunum hans að kenna en mikið djöfull var gaman. Heiðar Austmann dúndraði líka mikið af Eurovision og píkupoppi þannig ég var hamingjusöm stúlka.

Endaði svo kvöldið á Kaffibarnum í hræðilega súrri stemmningu. Korter í sex gaurar eru milljón sinnum verri en korter í þrjú gaurar. Korter í sex gaurarnir reyna ekki einu sinni að bjóða þér drykk eða kynna sig.. þeir stökkva bara beint á þig og miða á munninn! Jón Stefán sem villir á sér heimildir sem eiginmaður, unnusti og barnsfaðir er handhægur undir þessum kringumstæðum.


föstudagur, maí 20, 2005

Síðasta vígi karlmannsins.
Ungt fljóð gengur inn í ónefnda tölvuvöruverslun og lítur í kringum sig. Ungur karlkyns sölumaður kemur fljótlega auga á auðvelt fórnarlamb og gengur í átt til hennar.
Sölumaður (með peningaglampa í auga): Get ég aðstoðað?
Stúlka (brosir sínu blíðasta): Já takk, ég er að leita að lithylki fyrir prentarann minn.
Sölumaður (pirraður): Einmitt, hverskonar prentara ertu með?
Stúlka (horfir ráðvillt á milljón blekhylkjategundir fyrir framan sig): HP deskjet 320 -minnir mig. Ég er ekki alveg viss hvað ég á að kaupa.
Sölumaður (horfir á hana með lítilsvirðingu.): ,,Nei, þú lítur heldur ekki út fyrir að vita það."


fimmtudagur, maí 19, 2005

Fyrir Eurovison nördin.
Mig langar að brydda upp á nýbreytni hérna á síðunni. EUROVISON getraun í tilefni af væntanlegum *hóst* sigri Selmu okkar. Verðlaunin eru hvorki meira né minna en BJÓR í boði mín! Getraunin verður í gangi fram til klukkan 6 á laugardag. Svör óskast í kommentakerfið. Gangi ykkur vel...

1. Í hvaða stjörnumerki er gleðirokkarinn Eiríkur Hauksson?

2. Hvaða krassandi orðrómur var á sveimi um sænska keppandann Charlotte Nilsen árið 1999?

3. Af hverju tekur Ísrael þátt í evrópskri söngvakeppni?

4. Hvaða skildmenni hjartaknúsarans Enrique Iglesias (a.k.a Mr. Mole -molemolemole...) hefur tekið þátt í keppninni og fyrir hvaða land?

5. Hefur einhverntíma verið gert jafntefli í keppninni? Hvað á að gera ef slík staða kemur upp?

6. Við hvað líkti Gísli Marteinn, gríska keppandanum, honum Sakis Rouvas, árið 2004?

7. Úr hvaða lagi er þessi textabútur og frá hvaða landi?
,,A day is like a year without you
Every little thing about you
Has a special meaning to me"


8. Hvaða lönd hafa oftast gefið Íslandi 12 stig?

9. Hvað heitir þýska lagið frá 1998, hvað þýðir titillinn og hver er flytjandi lagsins?

10. Af hverju var upphaflega efnt til Eurovison söngvakeppninnar?


þriðjudagur, maí 17, 2005

Dreifarinn.
Þá fer senn að líða að vinnu. Bráðlega mun ég gerast sveitakerling á nýja leik, flytja í óðalið mitt í Þjórsárdalnum og pynta ferðamenn sem þangað villast. Sat einmitt fund með Þjóðveldisbæjarstjórn í morgun. Var með hálfgerðan móral því sökum prófastress og anna var ég ekki búin að undirbúa neitt af mínum verkum fyrir stjórnina en það kom sem betur fer ekki að sök. Þeir eru nú líka svo yndislegir og skilningsríkir hjá LV að það er alveg met. Alveg hreint frábært að vinna hjá þeim. Hinsvegar skrópaði öll stjórnin og tilkynnti sig veika. Ég hafði nú mínar efasemdir enda löng hvítasunnuhelgi nýliðin... Ég og Friðrik Sóf sátum því tvö ein yfir rómantískum kaffibolla og fórum yfir fundarsköp. Þriðji stjórnarmeðlimurinn bættist svo í hópinn en hann hafði víst skráð niður vitlausan tíma karlinn. Fashionably late líkt og sannur Íslendingur :)


mánudagur, maí 16, 2005

Breimandi köttur.
Djamm- og lærdómspásunni lauk formlega um helgina. Það var tekið all ærlega á því á próflokadjammi með samnördum í sagnfræðinni. Byrjaði á eðal kvöldverði með deildarskvísunum á Vegamótum og þar eftir var haldið í partý. Einhverjir (ég og Guðrún) fengu þá góðu hugmynd að leigja SingStar græjur í partýið og hafði það þau undraverðu áhrif að kvennkyns gestir voru um það bil 80% viðstaddra og karlmenn þar af leiðandi í miklum minnihluta. Vakti það eins og gefur að skilja ómælda kátínu karlpeningsins þar sem venjulega er hlutfallið öfugt. Þannig strákar, nú vitið þið hvernig á að trekkja að kvennfólkið -látið okkur syngja! Endaði fremur hauslaus, (alveg Edda á hróarskeldu full..),lappirnar áttu eitthvað erfitt með að bera mig, datt út um allar trissur og teymdu sagnfræðingarnir mig áfram. Hefði annars örugglega getað endað á kaffi austurstræti þannig guði sé lof fyrir þau! Þruglaði einhverja vitleysuna með sólheimabros á vör og vil helst ekki vita hvað ég sagði en er viss um að hafa verið afar sjarmerandi. Enduðum svo kvöldið í brjáluðu eftirpartýi í Grafarvoginum þar sem húsráðandi tók sig til og skellti sér bak við grillið og galdraði fram þennan líka glæsilega málsverð. Grillað svínakjöt í maríneringu, kartöflur, ferskt salat, grillað grænmeti, sósa og bara the works klukkan sex um morguninn. Hreinn eðal endir á kvöldinu en önnur eins þynnka hefur ekki sést manna á meðal. Að fara glær í bakkelsisboð til ömmu og éta rjómahnallþórur og drekka heitt súkkulaði er ekki besta þynnkumeðalið get ég sagt ykkur af biturri reynslu.


fimmtudagur, maí 12, 2005

A fish without a bisycle.
Mikið rosalega hlýt ég að vera leiðinlegur félagsskapur þessa dagana. Er búin að sökkva mér svo niður í skólann að ég get ekki talað um neitt ó-námstengt. Les ekki blöðin, horfi ekki á sjónvarpið og fer varla út úr húsi. Fyrst og fremst er ég hrifin af því að tala um fisk og þá sér í lagi þorsk. Fyrir Íslandssöguprófið einbeitti ég mér að þorskinum, fyrir samanburðarstjórnmál og stjórnmálaheimspeki gat ég troðið honum inn og svo má ekki gleyma kúrsinum sem fjallar eingöngu um, já einmitt, ÞORSK og Þorskastríð. Það er nú afar takmarkað hvað öðru fólki finnst gaman að ræða þetta málefni. Núna á ég samt bara nokkra daga eftir í þessari fiskamaníu minni og þá get ég aftur orðið skemmtileg og gleymum ekki málefnaleg. Ég lofa!


miðvikudagur, maí 11, 2005

Sorasnepill.
Nú vissi maður að DV væri ekki áreiðanlegasta blað í heimi. Fyrirsagnirnar þeirra eru sér kapítuli út af fyrir sig, smávægilegum atburðum slegið upp sem æsifréttum líkt og þegar Kiefer Sutherland kom til landsins. "Kiefer Sutherland í Reykjavík, fækkar fötum á súlustað!" Þegar blaðið var lesið kom í ljós að umrætt atvik varð nokkrum vikum áður -í Bandaríkjunum. Þeir birta nöfn og myndir af sakborningum jafnt sem sýknuðum einstaklingum og saka þá um glæpi undir flennistórum myndum. Þeir eru að eigin sögn stoltir af æsifréttarstílnum og þykjast sannfærðir um að það og ekkert annað viljum við Íslendingar. Það heyrði ég á DV boðsýningu á Brodway um daginn. Þeir gera smávægileg mistök eins og að birta mynd af fórnarlömbum og segja þá vera árásarmenn en blaðið hefur greinilega álitið að þetta væri ekki nóg og ákveðið að færa sig upp á skaftið. Núna skálda þeir hreinlega bara fréttir -birta myndir og ásakanir sem enginn flugufótur er fyrir. Hvet ykkur til að lesa þetta.


sunnudagur, maí 08, 2005

Dvel ég í draumahöll..
Er óhollt að dvelja of mikið í draumalandi? Ætli ég sé ein um að semja sögur í hausnum á mér? Alltaf er ég sjálf i aðalhlutverki en flétturnar eru æðimisjafnar. Sumar eru smásögur, aðrar epískar langlokur en allar eru þær skemmtilegar. Þegar ég svo upphugsa nýjan dagdraum er gleðin mikil við að útfæra hann sem best og hugsanlega tengja hann öðrum gömlum klassíkerum. Innra með mér hef ég lifað mörg æviskeið og í gegnum þau upplifað mikla gleði og marga sorgina. Jafnvel áður en ég fer út í ísbúð sem ég sögu um hvað muni gerast, hvern ég hitti og hvernig ferðin hugsanlega endar. Sú saga fer þó í smásagnarflokkinn og kemst að öllum líkindum ekki í þann epíska en þær sögur eru margar hverjar gamlir vinir. Ég kann söguþráðinn, línurnar og persónurnar en kosturinn við að hafa þær í hausnum á mér er að ég get heimsótt þær hvenær sem ég vil.


laugardagur, maí 07, 2005

Lærdómspásan.
Samnorræni Eurovision þátturinn er æðislegur. Skín eins og gull af eiri þegar borið er saman við hið síhressa sjarmatröll eldri borgara landsins, Gísla Martein. Eðaltöffarinn Eiríkur með rauða faxið er frábær í hinu illkvittna norrænaráði en danska lagið í kvöld fannst mér best, alveg ofsalega krúttlegt eitthvað. Þeir sem gagnrýna Eurovison eru bara í afneitun. Þessi keppni er mesta stemmning í heimi -á eftir SingStar partýum- og litla þjóðernissynnaða hjartað slær hraðar við að heyra hana Selmu okkar syngja á sviðinu.


Niðurtalningin.
Fimm dagar og tólf klukkutímar í próflok...


fimmtudagur, maí 05, 2005

Spennandi eða ekki.
Fáum víst að vita það í nótt hvort Verkamanna- eða Íhaldsflokkur vinnur í bresku þingkostningunum. Þessar kostningar eru álíka spennandi og síðustu forsetakostningar á Íslandi enda nokkuð morgunljóst hver vinnur. Fyrir mánuði síðan var kennarinn okkar í samanburðarstjórnmálum svo viss um sigur Íhaldsflokksins að hann vildi veðja við okkur um kostningaúrslit. Ef hann ynni lækkuðum við um 0,5 í einkun en ef Blair hefði það myndi allur kúrsinn hækka um 0,25. Við samþykktum en fyrrnefndur kennari hefur svo orðið hræddur um tap því sendi okkur tölvupóst í vikunni og lýsti yfir væntanlegum sigur Verkó. Veðmálinu því sennilega aflýst. Gerði annars hræðilega ritvillu í ritgerðinni minni í þessu fagi. Tók dæmi járnfrúnna sjálfa, Margaret Thatcher, og sagði hana hafa verið í Verkamannaflokknum. Eins og að segja Hannes Hólmstein vera í Vinstri Grænum.


Benni og Jenni.
Í prófunum er ég búin að uppgötva nokkuð nýtt. Það eru þeir stallbræður Benni og Jenni frá Ameríku sem ég er búin að kynnast vel síðustu daga. Þeir eru annars lang bestir með súkkulaðibitakökudeigi þó browny´s sé líka gott. Eiginlega er það bara deigið og brownis-ið sem mér finnst best en ég plokka það úr og hendi ísnum. Fyrir áhugasama þá eru Benni og Jenni með útsölu í Bónus þessa dagana þar sem þeir kosta ekki nema 500 kall dollan -hreint gjafaverð. En núna verð ég að drífa mig í ræktina. Sukkið er so ekki ókeypis.


miðvikudagur, maí 04, 2005

Bjórbaðið.
Þetta er skrítinn dagur. Fór í próf í morgun í Íslands- og Norðurlandasögu IV. Kunni ekki neitt nema eina spurningu um Þorskastríðin en held ég hafi nú samt klórað mig fram úr restinni á blaðri. Ætlaði að vera rosa fersk í prófinu og fara ekki allt of seint að sofa en lenti í að vera andvaka og því afskaplega svefnvana. Fór svo eftir próf dauðans að hitta kellingarnar mínar á Stúdentakjallaranum og fengum okkur svo sem eins og einn (eða tvo) bjóra til að fagna próflokum þeirra og hálfleik hjá mér. Sökum skorts á svefni og mat urðum við allar bara frekar kenndar klukkan 13:00 á miðvikudegi. Hlátrasköll og fuglabjarg dauðans á kjallaranum og ræddum hátt og fjálglega um spennandi efni eins og hasskökur, sexapartí og hópfróanir karlmanna. Einhverrra hluta vegna tæmdist staðurinn fljótlega... Rölti svo með stúlkunum niðúr í ÁTVR þar sem þær keyptu sér meira áfengi fyrir kvöldið en ég lét bara múttu sækja mig þar sem ég er ekki búin í prófum. Ætla samt að kíkja út í kvöld en bara edrú. Það er alveg hægt án þess að drekka. Í alvöru.


þriðjudagur, maí 03, 2005

One down.
Jæja þá hafa leiðir okkar Hannesar skilist í bili. Búin með fyrsta prófið og gekk bara alveg prýðilega. Var þó því miður eitthvað hálf úldin og ekki eins háfleig og blaðurkennd og vananlega en hann verður þá bara að sætta sig við stöðluð svör kallinn. Meikaði ekki að læra mikið meira í gær og eftir stutt lærdómssessjon í árnagarði fór ég heim og horfði á sjónvarpið i allt gærkveld -með Ben&Jerry´s mér við hlið. Núna er það síðan að massa allt Ísland á 20 öld hvorki meira né minna og er Norðurlandasögu 20. aldar bætt við, okkur nemendum til skemmtunar og ánægjuauka. Þetta verður æði en eftir hádegi á morgun verð ég hvorki meira né minna en hálfnuð í prófum. Til hamingju ég!


sunnudagur, maí 01, 2005

Byltingin.
Afar skemmtilegt og viðeigandi að lesa um Karl Marx á baráttudegi verkalýðsins. Kallinn var auðvitað snillingur þótt kenning hans hafi varla gengið upp og margt komi manni spánskt fyrir sjónir s.s. eins og kynþáttafordómar og fleira hressandi sem Marx stundaði. En penni hinn mesti var hann og getur maður ekki annað en hrifist með. Niður bakið fer unaðshrollur og heitar tilfinningar svella í brjósti við lesturinn. Megið þið þannig njóta fleygra lokaorða Þjóðverjans í tilefni dagsins og látið ykkur endilega vökna um augun:,,..Lofum hinum drottnandi stéttum að skjálfa fyrir kommúnistabyltingu. Þar hafa öreigarnir engu að týna nema hlekkjunum. Þeir eiga heilan heim að vinna. Öreigar allra landa, sameinist! (-Karl Marx.)


Stelpa, tvíburi, háskólanemi og sendiráðsstarfsmaður sem búsettur er í Vínarborg.

Tilvitnun mánaðarins:
Anyone who lives within their means suffers from a lack of imagination.
Oscar Wilde

- Ítaliufarinn
- Tai-landsfarinn
- Heimsreisufarar
- Sigga skokk
- Sauðurinn
- Tálkvenndið
- Mama Ace
- Hlibbið
- HuldaDögg
- Vera McBeal
- Thora-Spanjó
-
Bassaleikarinn í Roads
- Mr.Pölson
-
Kellingavæl
-
Siggaligg

- febrúar 2003
- mars 2003
- apríl 2003
- maí 2003
- júní 2003
- júlí 2003
- ágúst 2003
- september 2003
- október 2003
- nóvember 2003
- desember 2003
- janúar 2004
- febrúar 2004
- mars 2004
- apríl 2004
- maí 2004
- júní 2004
- júlí 2004
- ágúst 2004
- september 2004
- október 2004
- nóvember 2004
- desember 2004
- janúar 2005
- febrúar 2005
- mars 2005
- apríl 2005
- maí 2005
- júní 2005
- júlí 2005
- ágúst 2005
- september 2005
- október 2005
- nóvember 2005
- desember 2005
- janúar 2006
- febrúar 2006
- mars 2006
- apríl 2006
- maí 2006
- júní 2006
- júlí 2006
- ágúst 2006
- september 2006
- október 2006
- nóvember 2006
- desember 2006
- febrúar 2007

- blogger
- blogskins
- haloscan
- myndasmiðurinn
- hönnuðurinn


Site Meter